Brim hf.
Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022
Sjálfbær rekstur er stefna Brims sem þýðir að félagið þarf að ná efnahagslegum markmiðum um arðsemi, gæta að umhverfi og náttúru þannig að upp vaxi það sem af er tekið og tryggja að samfélagið eflist og batni vegna starfsemi félagsins. Árið 2022 skilaði okkur áfram á þessari leið.
Ávarp forstjóra
Gjöfult ár en óvissa framundan
Árið 2022 var Brimi gjöfult. Loðnuveiðar gengu vel og var afli skipa góður. Þá gekk bolfiskveiðin að óskum þó veiðiheimildir væru 8 þúsund tonnum minni en árið 2021. Vinnsla afurða skilaði verðmætari afurðum og erlendir markaðir voru hagstæðir, verðin voru góð og sala gekk vel. Fjárfesting í nýjum skipum, aflaheimildum, hátækni vinnslubúnaði og markaðs- og sölustarfi á síðustu árum skilaði sér vel inn í reksturinn. Á árinu voru fest kaup á frystiskipinu Sólborgu RE ásamt veiðiheimildum og þá var gengið frá samkomulagi um kaup á 50% hlut í danska félaginu Polar Seafood Denmark A/S sem er sölufyrirtæki og vinnsluaðili sjávarafurða.
Rekstrartekjur á árinu námu 450,9 milljónum evra samanborið við 387,9 milljónum árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 117,7 milljónir evra sem nam 26,1% af rekstrartekjum, en var 93,2 milljónir evra eða 24,0% árið áður. Hagnaður ársins varð 79,3 milljónir evra en var 75,2 milljónir árið áður. Laun og launatengd gjöld námu samtals 13,3 milljörðum króna á meðalgengi ársins samanborið við 11,8 milljarða árið áður. Skattspor félagsins sem eru gjöld sem félagið greiðir og innheimtir skattar af starfsfólki nam 10,5 milljörðum króna á árinu en 9,1 milljarði árið áður. Í árslok var staðan sú að tekjur félagsins höfðu aldrei verið meiri á einu ári og afkoman með allra besta móti.
Rekstur fyrirtækja er mannanna verk og því er árangurinn fyrst og fremst okkar fólki að þakka. Starfsfólk Brims, við veiðar, vinnslu og í markaðs og sölustarfi hér heima og ytra sýndi enn og aftur hvað í því býr. Stefna félagsins þarf einnig að vera skýr svo allir sigli í sömu átt. Frá 2018 hefur Brim stefnt að einföldum og sjálfbærum rekstri, markvissri nýtingu veiðiheimilda, vexti og aukinni arðsemi og öflugu starfi á sviði markaðs- og sölumála. Segja má að sú stefna hafi gengið eftir því á þessum tíma hafa verðmæti afurða aukist, tekjur tvöfaldast og hagnaður og arðsemi hefur nær þrefaldast og er nú meiri en áður í sögu félagsins.
Ekki bara fiskur og fjármunir
En Brim snýst ekki bara um fisk og fjármuni. Sjálfbær rekstur Brims lítur ekki einungis að fjárhagslegum þáttum heldur einnig umhverfi og samfélagi. Brim birtir nú sjötta árið í röð umhverfis- og samfélagsuppgjör þar sem greina má framlag fyrirtækisins til almennra framfara og umbóta í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Uppgjörið byggir á öflugum hugbúnaði sem Brim hefur átt forystu um að þróa og þar má sjá bæði að verkefnin eru mörg, flókin og að langt er í land. Þar sést einnig að félagið er á réttri leið og að hægt er greina hvaða aðgerðir hafa áhrif og skila árangri. Félagið nálgaðist markmið sín á sviði orkunotkunar, endurvinnslu og annara þátta sem áhrif hafa á kolefnisspor félagsins. Félagið hefur sett sér stefnu í umhverfis- og loftlagsmálum og er það fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi til að gera það. Þar er horft til þess að draga úr losun, kolefnahlutleysis til lengri tíma og sérstaklega að draga úr losun í hlutfalli við tekjurnar sem reksturinn skilar. Félagið festi á árinu kaup á jörðinni Torfastöðum á Vopnafirði og stefnir að því að verða virkur þátttakandi í kolefnisjöfnun með skógrækt, endurheimt votlendis eða öðrum viðurkenndum aðferðum. Í þessum málaflokki er mikilvægt að hafa í huga að veigamiklir þættir eins og þróun aflvéla sem knúnar eru grænni orku eða aðgengi að raforku fyrir starfsstöðvar í fámennum byggðalögum eru háðir ytri aðstæðum. Brim einsetur sér þess vegna að vinna markvisst að þeim markmiðum sem eru í höndum félagsins og vera ávallt reiðubúið að innleiða hagfelldar umhverfislausnir þegar þær bjóðast. En stundum er örðugt um vik eins og nú þegar Landsvirkjun hefur ákveðið að selja upprunaábyrgðir fyrir raforku sem þýðir að Brim þarf að greiða fyrirtækinu fyrir að geta sýnt sínum viðskiptavinum fram á að raforka á Íslandi sé græn. Þetta þýðir aukinn raforkukostnað og er öfugur hvati til að fjárfesta í raforkukostum við vinnslu og vinnur því gegn markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Brim mun ekki kaupa upprunaábyrgðir af Landsvirkjun á árinu 2023.
Brim er virkur þátttakandi í samfélaginu og leggur margvíslegri starfsemi lið í þeim tilgangi að efla íþróttir, menningu, menntun og aðra félagslega innviði. Það er afstaða félagsins að öflugt og fjölbreytt samfélag leggi grunninn að heilbrigðu mannlífi og þar með atvinnulífi sem stendur vel að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Hæst ber samstarf félagsins við Hið íslenska bókmenntafélag og átak félagsins í þágu íslenskrar tungu en þar að auki styður félagið við björgunarsveitir og íþróttafélög á starfssvæðum félagsins og sjávartengd verkefni af ýmsum toga eins og Sjávarútvegsskóla unga fólksins. Þá á Brim í farsælu samstarfi við Akranesbæ um framtíð Breiðarinnar sem er neðst á Skipaskaga og var á síðustu öld athafnasvæði félagsins og á síðasta ári var haldin vegleg hugmyndasamkeppni um þróun svæðisins sem hlaut mjög góðan hljómgrunn heimamanna og vekur vonir um ónýtt tækifæri í bæjarfélaginu.
Sjálfbær rekstur er stefna Brims sem þýðir að félagið þarf að ná efnahagslegum markmiðum um arðsemi, gæta að umhverfi og náttúru þannig að upp vaxi það sem af er tekið og tryggja að samfélagið eflist og batni vegna starfsemi félagsins. Árið 2022 skilaði okkur áfram á þessari leið.
Horfur á aukinni áhættu
Í dag er óvissa. Í Evrópu er stríð og verðbólga og hér á landi er órói á vinnumarkaði ofan í mestu verðbólgu í fjórtán ár. Allir þessir þættir geta haft mikil áhrif á starfsemi Brims og skapa áhættu í rekstri félagsins.
Þá er vaxandi vantrú á opinberum innviðum sjávarútvegs, einkum þegar kemur að rannsóknum og forsendum ráðgjafar til stjórnvalda um leyfilegt aflamagn tegunda. Í sumum bolfisktegundum eins og karfa og þorski hafa veiðiheimildir verið skornar verulega niður á síðustu árum þó svo ráðgjöf um veiði hafi í áratugi undan átt að miða að verndun og eflingu þeirra stofna. Í rekstri Brims birtist þetta á þann hátt að þótt fyrirtækið hafi bætt við sig aflahlutdeild í bolfiski veiðir það sífellt minna magn.
Til viðbótar er rétt að nefna viðloðandi pólitíska óvissu varðandi leikreglur atvinngreinarinnar. Á vettvangi stjórnmálanna heyrast iðulega áköll um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu nú þegar efnahagslegum markmiðum um verðmætasköpun og arðsemi hefur loks verið náð eftir þriggja áratuga uppbyggingu. Er það gert í nafni sáttar sem þegar upp er staðið hefur aldrei ríkt og er ekki hægt að ná. Mikilvægt er að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki ríki þar sem aðilar í greininni hafa skuldbundið sig og aðlagað fjárfestingar og rekstur að því fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur náð að festa sig í sessi á undanförnum áratugum. Hitt er síðan annað mál að væntanlega verða endalausar deilur um skiptingu á þeim arði sem greinin skilar.
Við þær aðstæður sem uppi eru núna teljum við í Brimi rétt að fara varlega í öllum mikilvægum ákvörðunum sem varða framtíð félagsins á næstu mánuðum. Áfram mun framtíðin bera með sér ný tækifæri og líkt og undanfarin ár mun Brim grípa þau og þróa af skynsemi. Markmið félagsins eru skýr og að þeim verður áfram unnið í þágu starfsfólks, viðskiptavina, umhverfis, hluthafa og samfélagsins í heild.
Um árs -og sjálfbærniskýrsluna
Brim gerir nú sjötta árið í röð grein fyrir ófjárhagslegum þáttum starfsemi sinnar og í þriðja sinn með sameiginlegri árs- og sjálfbærniskýrslu.
Allar upplýsingar í skýrslunni eru í samræmi við bestu þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem Brim hefur á umhverfi, samfélag og/eða efnahag. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila en EFLA hefur yfirfarið framsetningu og upplýsingar um umhverfislega þætti.
Upplýsingar um ófjárhagslega þætti starfseminnar eru unnar í samræmi við GRI Standard (e. Global Reporting Initiative GRI100-400) og UFS leiðbeiningar Nasdaq. Fyrirsjáanlegar eru auknar kröfur um upplýsingagjöf vegna ófjárhagslegra þátta, tengt innleiðingu á CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive) og SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation). Vinna við árs- og sjálfbærniskýrslu hefur miðað að því að undirbúa aukna upplýsingagjöf Brims á þessu sviði.