Sjálfbærni og umhverfi

Sjálfbærni og umhverfi

Stefna Brims í sjálfbærni og umhverfismálum

Brim hefur um árabil lagt áherslu á ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi í starfsemi sinni og hefur frá árinu 2017 gefið út skýrslu þar sem umhverfis- og samfélagsþættir eru reifaðir. Brim undirritaði sameiginlega stefnu SFS varðandi samfélagsábyrgð árið 2020 en hún er byggð á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og skiptist í þrjá hluta: bætum hringrásina, lágmörkum kolefnissporið og orkunýting og orkuskipti. Stefnan lýsir leiðum að þessum markmiðum.

Þá hefur Brim mótað eigin umhverfis- og loftslagsstefnu og sett sér markmið í samfélags- og umhverfisþáttum. Fjárfestingar og innra starf félagsins taka mið af þessum markmiðum. Lögð er áhersla á uppbyggingu hringrásarhagkerfisins og leiðir til að minnka kolefnissporið eins og kostur er, t.d. með að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna íslenska raforku og hagkvæmri stýringu aðfanga. Tækni til orkuskipta á fiskiskipum hefur ekki enn verið þróuð en Brim fylgist vel með á þeim vettvangi. Þrátt fyrir það eru ýmsir möguleikar til orkuskipta tengdir rekstri Brims og hafa sumir þeirra þegar verið nýttir. Rafvæðing fiskmjölsframleiðslu á Vopnafirði átti sér stað fyrir ríflega 10 árum síðan, en losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskmjölsframleiðslu jókst þrátt fyrir það um tæp 9 þús tCO2* á árinu 2022, að mestu vegna skerðinga á afhendingu raforku til fiskmjölsframleiðslu. Þá hefur Brim m.a. fjárfest í landtengingum skipa í bolfiskveiðum, umhverfisstjórnunarkerfi, sparneytnari skipum og útskiptingu kælimiðla sem losa gróðurhúsalofttegundir.

Frekari fjárfestingar á sviði orkuskipta eru fyrirhugaðar hjá Brimi, m.a. með rafvæðingu flutninga- og framleiðslutækja sem leysa olíuknúin tæki af hólmi. Sanngjarnt verð og öruggt aðgengi að raforku þurfa að vera fyrirsjáanleg til langs tíma, til að hægt sé að taka ákvarðanir um slíkar fjárfestingar og því þarf að liggja skýrt fyrir að orkuskipti heimila og hefðbundinna fyrirtækja verði í forgangi varðandi aðgengi að raforku á komandi árum. Félagið lítur svo á að með samvinnu, áherslu á heildarhagsmuni og skynsamlegum fjárfestingum í orkuframleiðslu, orkudreifingu og hagnýtingu olíu og annarra varaorkugjafa megi lyfta grettistaki á þessu sviði á komandi árum.

*Þegar gefið er upp magn tCO2 í árs- og samfélagsskýrslu Brims 2022 er átt við tonn koldíoxíðígilda

Markmið Brims í umhverfisþáttum

Brim setti sér metnaðarfull markmið í umhverfis- og sjálfbærniþáttum á árinu 2021 og fylgdi þannig eftir áralöngu umhverfisstarfi félagsins. Árið 2022 var tekið mið af þessum markmiðum við rekstur og stefnumörkun og mótuð umhverfis- og loftslagsstefna sem nú hefur tekið gildi. Lögð er áhersla á skýra mælikvarða til að fylgjast með því hvort markmið gangi eftir og er staða þeirra að verulegu leyti uppfærð með sjálfvirkum hætti í umhverfisstjórnunarkerfi Brims en það hefur notið viðurkenningar Rannís sem þróunarverkefni sl. ár. Þar er haldið utan um olíunotkun skipa, flokkun úrgangs og aðrar mikilvægar mælingar tengdar loftslagsmálum sem leggja grunn að upplýsingagjöf til hagaðila, umhverfisuppgjöri og samtali um loftslagsmál innan félagsins.

  • Brim hefur sett sér það markmið til ársins 2025 að auka hlutfallslega notkun á landrafmagni til skipa þegar þau eru í höfn um 10-20% í stað olíu
    Hlutfallsleg notkun á landrafmagni stóð í stað á milli áranna 2021 og 2022, en samtals voru notaðar um 570 MWst af raforku til landtenginga skipa. Þetta helgast m.a. af því að Brim hefur lagt áherslu á að nýta fjárfestingu í skipum sem best og er afla ferskfiskskipa í ákveðnum tilvikum landað nærri veiðislóð, utan Reykjavíkurhafnar en þar hefur Brim fjárfest í landtengingum. Mikilvægt er að innviðir hafna um allt land geri ráð fyrir notkun landrafmagns, þannig að sjávarútvegsfyrirtækjum verði gert kleift að minnka olíunotkun með þessum hætti.
  • Brim hefur sett sér það markmið til ársins 2025 að auka hlutfallslega notkun heitavatns til skipa í höfn um 30-50% í stað olíu
    Á árinu 2022 gekk markmið um notkun á heitu vatni í stað olíu vel eftir. Notkun á heitu vatni til skipa í höfn jókst úr tæpum 4.000 m3 í ríflega 7.500 m3. Notkun á heitu vatni fer vel saman við notkun landrafmagns og er mikilvægt að innviðir hafna verði uppfærðir til að gera ráð fyrir þessum loftslagsvænu leiðum til vinnu og upphitunar um borð.
  • Stefnt er að því að setja upp rafmagnstengingu fyrir uppsjávarskip á hafnarbakkanum á Vopnafirði fyrir árslok 2024
    Fyrir dyrum standa framkvæmdir við lengingu hafnarkants á Vopnafirði. Samhliða þeim framkvæmdum stefnir Brim að uppsetningu rafmagnstengingar fyrir uppsjávarskip.
  • Stefnt er að því að olíunotkun hvers fiskiskips félagsins dragist saman um 2% á ári næstu árin
    Vel hefur verið fylgst með olíunotkun fiskiskipa félagsins á árinu. Gott samtal á milli útgerðarstjóra, skipstjóra, vélstjóra o.fl. hefur verið um að draga úr olíunotkun og var hún um 10% minni á árinu 2022 en árið 2021, þrátt fyrir aukinn afla. Olíunotkun á veitt tonn uppsjávarfisks var 30% minni árið 2022 en árið 2021. Olíunotkun á veitt tonn bolfisks var 4% minni en árið 2021.
  • Við endurnýjun á bílum og vinnuvélum félagsins verða valin farartæki sem nota endurnýjanlega orku ef þess er nokkur kostur
    Þessu markmiði hefur verið fylgt eftir svo sem raunhæft hefur verið talið en í ákveðnum tilvikum gerir skortur á innviðum á Íslandi félaginu erfitt fyrir að fylgja þessu markmiði eftir. Til dæmis hefur ekki verið hægt að gera ráð fyrir að rafmagnsbílar dugi starfsmönnum sem þurfa að nýta þá að verulegu leyti til ferða til og frá Vopnafirði að vetrarlagi. Fjöldi bíla og vinnuvéla sem nota endurnýjanlega orku stóð í stað milli ára.
  • Útskiptum á freon kælimiðlum ljúki að stærstum hluta fyrir árslok 2025
    Stór skref hafa verið stigin í átt að þessu markmiði á árinu 2022. Frystiskipið Vigri RE 71 fór í slipp haustið 2022 og var þá freoni í kælikerfi á millidekki skipt út að fullu. Gera má því ráð fyrir að kolefnislosun vegna kælimiðla verði að mestu fallin út í umhverfisbókhaldi Brims árið 2023, en árið 2022 var losun vegna þeirra 2.207 tCO2 og minnkaði úr 4.371 tCO2 árið 2021.
  • Hlutfall endurvinnanlegs rekstrarúrgangs aukist um 3% á ári til ársins 2025 með markvissu átaki
    Endurvinnsluhlutfall úrgangs var 77% árið 2022, en var 73% árið 2021.
  • Leitað verður leiða til að aukið hlutfall rekstrarúrgangs fari í hringrásarhagkerfið
    Kolefnislosun vegna úrgangs minnkaði um tæp 100 tonn á árinu 2022 frá árinu 2021, eða um ríflega fjórðung.
  • Umhverfisstjórnunarkerfi félagsins stýri nýtingu á raforku, köldu og heitu vatni á sem hagkvæmastan hátt og draga úr sóun
    Umhverfisstjórnunarkerfi Brims er hornsteinn í framkvæmd loftslagsstefnu Brims. Með umhverfisstjórnunarkerfinu fæst skýr yfirsýn yfir helstu þætti í starfseminni sem hafa áhrif á kolefnislosun og úrgangsmyndun. Kerfið veitir möguleika til að fylgjast með aðfanganotkun því sem næst í rauntíma og einföld framsetning upplýsinga eykur umræðu innan Brims um möguleika til minni kolefnislosunar og bættrar nýtingar aðfanga.
  • Brim stefnir að því að verða virkur þátttakandi í vottaðri kolefnisbindingu á Íslandi með skógrækt, með endurheimt votlendis og/eða með öðrum aðferðum fyrir árið 2025
    Brim fjárfesti á árinu 2022 í jörðinni Torfastöðum í Vopnafjarðarhreppi en jörðin er um 850 hektarar og vel fallin til skógræktar. Hún hefur verið skipulögð m.t.t. kolefnisbindingar. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hluti jarðarinnar geti nýst sem útivistarsvæði fyrir Vopnfirðinga og gesti þeirra. Gengið hefur verið frá kaupum á trjáplöntum og er ráðgert að gróðursetning hefjist á árinu 2023.

Brim hvetur til framþróunar í umhverfismálum

Brim var tilnefnt til hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM árið 2022, en félagið hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019. Hvatningarverðlaunin eru ætluð til hvatningar fyrir ung fyrirtæki og frumkvöðla, aukinnar nýbreytni og til að vekja athygli á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Í umsögn dómnefndar um tilnefningu Brims kemur fram að Brim sé tilnefnt fyrir "... að vera leiðandi í innleiðingu sjálfbærniviðmiða og er sífellt að leita nýrra leiða til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma. Orkunotkun og orkuskipti hafa verið félaginu hugleikin og þá hefur fyrirtækið hannað sitt eigið umhverfiskerfi sem kortleggur heildar kolefnisspor félagsins. Brim hefur undanfarin ár gefið út samfélagsskýrslu sem greinir frá hvaða áhrif fyrirtækið hefur á samfélagið og umhverfið. Brim var fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi til að gefa út „græn og blá skuldabréf“ og að líkindum fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum. Þessar áherslur hjá Brim í umhverfismálum geta orðið öðrum fyrirtækjum, bæði smærri og stærri, góð hvatning."

Losunarkræfni tekna minnkar

Losunarkræfni tekna fyrirtækja (Greenhouse gas intensity) er mælikvarði á hlutfall verðmætasköpunar fyrirtækja og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem kemur til vegna starfsemi þeirra (samtala umfangs 1, umfangs 2 og umfangs 3). Losunarkræfni tekna er einn nauðsynlegra mælikvarða til að taka tillit til við innleiðingu á SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation), sem stendur fyrir dyrum. Mælikvarðinn tekur tillit til vaxtar fyrirtækja og getur nýst til samanburðar á milli fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum og til að meta mismunandi fjárfestingarkosti sem hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Brim hefur fjárfest umtalsvert á síðustu árum með aukna verðmætasköpun og minni losun gróðurhúsalofttegunda að markmiði. Þær fjárfestingar, markmiðasetning og aðgerðir síðustu ára og hagstæð aflabrögð og markaðsaðstæður hafa leitt til verulegrar lækkunar á losunarkræfni heildartekna. Hafa ber í huga að margir ytri þættir geta haft áhrif á losunarkræfni tekna og má vænta sveiflna á þeim á komandi árum, samhliða breytingum á markaðsaðstæðum og stöðu fiskistofna.

Hrein virðiskeðja sjávarútvegs

Brim hefur unnið undanfarin ár eftir umhverfisáætlun undir yfirskriftinni „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“. Grundvöllur þeirrar áætlunar er markviss kortlagning umhverfisáhrifa félagsins í gegnum alla virðiskeðjuna, frá veiðum til markaða. Á grunni kortlagningarinnar vinnur Brim að nýsköpun og hönnun á nýjum lausnum, sem draga úr vistspori afurða. Markmið þessarar áætlunar er að nota tæknilega þekkingu til að þróa hjá Brimi nýja og endurbætta verkferla sem munu umbylta getu félagsins til að stýra starfsemi þess í takt við markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Umhverfisstjórnunarkerfi Brims sannar gildi sitt

Á árinu 2022 sannaði umhverfiskerfi Brims sannarlega gildi sitt. Kerfið kortleggur heildar kolefnisspor félagsins og streyma upplýsingar frá helstu þáttum í rekstri þess með rafrænum hætti inn í umhverfisgagnagrunn þar sem helstu mæliþættir eru síðan birtir í mælaborði og nýtast sem mikilvægar stjórnendaupplýsingar.

Helstu þættir í rekstri sem fylgst er með eru olía og kælimiðlar, útflutningur afurða, innanlandsflutningur, úrgangur, rafmagn, heitt og kalt vatn. Lögð er áhersla á að tengja umhverfismál við fjárhagslegan ávinning af fjárfestingum og aðgerðum, með mati á tekjumöguleikum og lækkun kostnaðar. Þannig styður umhverfiskerfið vegferð Brims í átt að sjálfbærri þróun. Kerfið byggir á góðum reikningsskilavenjum og hefur nýst á árinu 2022 til að birta upplýsingar úr umhverfisuppgjöri á 3ja mánaða fresti samhliða birtingu upplýsinga úr fjárhagslegum árshlutauppgjörum.

EFLA verkfræðistofa hefur endurskoðað framsett gögn fyrir árin 2020 - 2022, útreikninga í kerfinu, forsendur staðla og áritaði umhverfsuppgjörið sem skoðunaraðili eftir afstemmingu gagna við fjárhag.

Losunarbókhald í þróun

Losunarbókhald Brims hefur verið í sífelldri þróun og ár frá ári hefur verið bætt við fleiri þáttum starfseminnar. Til þess að geta metið hvernig losun hefur þróast hefur verið reiknað kolefnisspor miðað við aðferðafræði grunnársins 2015. Þá losaði félagið 71.688 tCO2 en sambærileg losun var 69.191 tCO2 á árinu 2022. Þar af var losun vegna olíunotkunar fiskmjöls-verksmiðja 11.377 tCO2, sem er um 9 þús tCO2 meira en árið 2021. Meginorsök aukinnar losunar fiskmjölsframleiðslu eru skerðingar á afhendingu raforku til fiskmjölsverksmiðju Brims á Vopnafirði.

Losunarbókhald Brims byggir á umhverfisstjórnunarkerfi sem þróað hefur verið af starfsmönnum og samstarfsaðilum Brims. Til að kerfið geti nýst fleiri fyrirtækjum á sjálfbærnivegferð sinni hefur fyrirtækið Stika umhverfislausnir ehf tekið við rekstri, þróun og sölu kerfisins.

Orkunýting

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna veiða

Losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri Brims er að mestu leyti vegna olíunotkunar skipa. Lögð hefur verið áhersla á gott samtal vélstjóra, skipstjóra, útgerðarstjóra og annars starfsfólks um olíunotkun og miðlun upplýsinga um kolefnisspor skipa. Veður, fiskgengd og breytingar í umhverfi eru meðal þátta sem hafa áhrif á veiðar á villtum fiskistofnum. Mikilvægt er að taka tillit til þessara forsendna þegar bornar eru saman niðurstöður um losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára.

Heildarolíunotkun skipa Brims á árinu 2022 var tæplega 20,4 milljónir lítra, sem olli losun tæplega 57,4 þúsund tCO2 við veiðar á ríflega 194 þúsund tonnum af afla. Til samanburðar var losun á árinu 2021 64,4 þús tCO2 vegna veiða á 147 þús tonnum af afla. Öll skip Brims nota MGO eða DMA olíu sem er einungis með 0,1% brennisteinsinnihald.

Losun vegna veiða uppsjávarfisks á hvert tonn af veiddum afla var á árinu 2022 einungis 160 kg CO2, sem er umtalsvert lægra en árið 2021 (220 kg CO2 á veitt tonn) og einnig mun lægra en losun ísfisksskipa (710 kg CO2 á veitt tonn) og losun frystiskipa (890 kg CO2 á veitt tonn). Losun ísfisksskipa er sambærileg og árið 2021, en umtalsvert lægri í tilviki frystiskipa. Losun vegna veiða uppsjávartegunda er mjög lág í samanburði við flestar aðrar matvörur og líklegt að veruleg tækifæri felist í aukinni áherslu á frystingu uppsjávarafurða, í samkeppni við aðrar matvörur, ef gert er ráð fyrir áframhaldandi auknum áhuga neytenda á kolefnisspori matvæla.

Brim fjárfesti í orkusparandi veiðarfærum fyrir uppsjávarskip á árinu og má leiða líkur að því að sú fjárfesting hafi stuðlað að góðum árangri á árinu 2022. Með aukinni samvinnu skipa, aflmeiri landtengingum við löndun og áframhaldandi samtali um leiðir til að draga úr olíunotkun við veiðar stefnir Brim á frekari framfarir á þessu sviði á komandi árum.

Þekking á stöðu fiskistofna er afar mikilvæg, til að hægt sé að lágmarka olíunotkun við veiðar. Til að auka þá þekkingu á Brim meðal annars í góðu samstarfi við Hafrannsóknastofnun og lætur stofnuninni í té gögn um stærðardreifingu afla. Á árinu 2022 var dr. Kristján Þórarinsson ráðinn fagstjóri fiskimála hjá Brim, sem eykur getu félagsins á sviði fiskifræði- og vistkerfisrannsókna.

Jafnframt er mikilvægt að umhverfi fiskveiðistjórnunar og kjarasamningar sjómanna styðji við vegferð í átt að minna kolefnisspori veiða.

Með aukinni þekkingu á losun vegna vinnslu, umbúða og flutnings afurða, hefur Brim náð mun betri yfirsýn yfir losun á hvert kg afurða. Þegar þær niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður vísindarannsókna á losun gróðurhúsalofttegunda matvælaframleiðslu almennt, kemur glögglega í ljós að afurðir Brims standa sterkt að vígi.

Stuðningur við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála

SoGreen er íslenskt sprotafyrirtæki sem hefur lagt áherslu á menntun stúlkna í Afríku sem leið til að takast á við loftslagsvána. Brim hóf á árinu 2022 stuðning við verkefni SoGreen, sem stefnir að vottun kolefniseininga á komandi misserum. Frekari upplýsingar um verkefni SoGreen.

Orkunýting

Orkunotkun fiskmjölsverksmiðja

Leitast er við að nota raforku eins og kostur er í fiskmjölsverksmiðjum Brims en fiskmjölsverksmiðjan á Vopnafirði var rafvædd árið 2010. Framleiðsla fiskmjöls er orkukræft ferli og voru alls notaðar tæplega 65 gígavattstundir (GWst) af orku til framleiðslu fiskmjöls á árinu 2022. Þar af fengust tæpar 24 GWst hjá grænum rafveitum en raforka frá veitum landsmanna til fiskmjölsverksmiðja á árinu 2022 var skert verulega á árinu 2022. Einungis 36,5% orkunotkunar fiskmjölsverksmiðja á árinu 2022 kom úr endurnýjanlegri orku og losaði fiskmjölsverksmiðja Brims 11.377 tCO2 ígilda á árinu. Til samanburðar var raforkunotkun fiskmjölsverksmiðja rúmlega 40 GWst árin 2015 og 2018 en þá var endurnýjanleg raforka um 80% af heildarorkunotkun fiskmjölsverksmiðja.

Eldsneytisnotkun fiskmjölsverksmiðjanna jókst úr 751 þúsund lítrum árið 2021 í 3,99 milljón lítra árið 2022. Olíunotkun á framleitt tonn úr fiskmjölsverksmiðjum félagsins fór úr 9,0 lítrum á tonn árið 2021 í 26,2 lítra á tonn 2022.

Markmið Brims er að nota umhverfisvæna orkugjafa við framleiðslu fiskmjöls. Síðan félagið fjárfesti í rafvæðingu hefur notkun á raforku stóraukist, meðal annars vegna tilkomu gagnavera, sem nota í dag yfir 1000 GWst af raforku á ári. Skerðing á raforku til fiskmjölsverksmiðja hefur í för með sér að fjárfesting í orkuskiptum sem þegar hefur átt sér stað nýtist ekki sem skyldi. Því telur Brim afar mikilvægt að orkuskiptum hefðbundinna fyrirtækja verði forgangsraðað við afhendingu raforku á komandi árum, svo tryggja megi fyrirsjáanleika orkuafhendingar. Slíkt er forsenda þess að fyrirtæki geti ráðist í fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til að orkuskipti í íslensku samfélagi geti gengið eftir.

Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hefur með undirritun viljayfirlýsinga við Landsnet, Rarik og HS Veitur annars vegar og Landsvirkjun hins vegar stuðlað að aukinni raforkunotkun við vinnslu fiskmjöls. Þannig er hægt að draga úr notkun á orkugjöfum sem eru með hærra kolefnisspor og um leið auka líkurnar á því að markmið Parísarsamningsins og aðgerðaáætlunar ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum náist. Á árunum 2017-2021 voru notaðar 902 GWst af rafmagni við framleiðslu fiskmjöls á Íslandi, sem þar með sparaði brennslu á 87 milljón lítrum af olíu. Við það minnkaði kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 260 þús tCO2. Hlutur Brims í heildarnotkuninni var 195 GWst, sem sparaði brennslu á 19 milljón lítrum af olíu. Við það minnkaði kolefnislosun félagsins um 56 þús tCO2 á tímabilinu.

Með undirskrift 22. júní 2020 var fyrri viljayfirlýsingu FÍF og Landsvirkjunar framlengd, en í ljósi þeirra skerðinga sem hafa átt sér stað á árinu 2022 og 2023 er í dag unnið að breyttu fyrirkomulagi.

Viljayfirlýsing milli FÍF, Landsnets, Rarik og HS Veitna, um flutning og dreifingu raforku, þar sem aðilar vinna sameiginlega að bættum árangri í loftslagsmálum með hagkvæmari nýtingu fjárfestinga og innviða að leiðarljósi, var undirrituð 2018 og er enn í gildi.

Fiskmjölsframleiðsla Brims jafngildir 6.060 bifreiðum

Olíunotkun fiskmjölsverksmiðja Brims á árinu 2022 er sambærileg ársnotkun 6.060 bifreiða ef miðað er við að meðaleyðsla bifreiðanna sé 6 L/100km og að eknir séu 11.000 km á ári.

Orkunýting

Kolefnisgjöld á eldsneyti

Kolefnisgjald er skattur sem leggst á jarðefnaeldsneyti og var 12,05 krónur árið 2022 á hvern lítra af gas- og dísilolíu til skipa. Frá 2015 til 2022 hefur kolefnisgjald ríflega tvöfaldast. Álagning þess er liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu við skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.

Á myndinni hér til hliðar sést þróunin á gjaldinu á einstakar tegundir eldsneytis ásamt útreikningi á kolefnisgjaldinu undanfarin ár.

Orkunýting

Bifreiðar og tæki

Eldsneytisnotkun bifreiða og tækja er óveruleg í samanburði við skip og verksmiðjur. Árið 2022 var eldsneytisnotkun 44.126 lítrar, sem er lítilsháttar lækkun frá síðasta ári (44.965 lítrar). Samtals eru 23 bifreiðar í rekstri félagsins, sem er aukning um 2 bifreiðar frá árinu áður. Brim stefnir á aukna notkun rafmagnsbíla og tækja á næstu árum og hefur sett upp hleðslustöðvar fyrir bifreiðar félagsins, starfsfólk og gesti.

Orkunýting

Sala upprunaábyrgða raforku

Landsvirkjun hefur ákveðið að selja innlendum heimilum og hefðbundnum fyrirtækjum upprunaábyrgðir raforku frá og með þessu ári í þeim tilgangi að auka arð af starfsemi og færa reglur til samræmis við meginland Evrópu. Upprunaábyrgðir raforku þjóna þeim tilgangi að sýna orkukaupendum fram á að orka sem keypt er sé framleidd með endurnýjanlegum hætti. Þar til nú hefur Landsvirkjun afhent upprunaábyrgðir án endurgjalds enda býður fyrirtækið ekki á almennum markaði annarskonar raforku en endurnýjanlega.

Öll raforka sem Brim kaupir er framleidd með endurnýjanlegum hætti og telst því græn. Brim stendur núna frammi fyrir vali um að kaupa upprunaábyrgðirnar sem þýðir hærra raforkuverð eða að bókhald Brims gefi til kynna að ekki hafi verið keypt græn orka.  Þannig mun svokölluð reiknuð losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 2) hækka sem nemur þeirri losun sem framleiðsla raforku sem Brim nýtir hefði valdið ef hún hefði verið framleidd með kolaverum eða með öðrum óendurnýjanlegum hætti eins og algengt er á meginlandi Evrópu.

Gera má ráð fyrir að reiknuð losun Brims á gróðurhúsalofttegundum vegna raforkukaupa hefði verið um 20-25 þúsund tCO2 árið 2022, sem væri um 25% viðbót við heildarlosun (umfang 1, 2 og 3) samkvæmt umhverfisuppgjöri félagsins.  Þetta þýðir að Brim og önnur íslensk matvælafyrirtæki geta síður nýtt sér græna vinnslu afurða sinna við markaðssetningu erlendis nema að greiða raforkufyrirtækjum sérstaklega fyrir það.

Brim hefur þegar fjárfest í rafvæðingu fiskmjölsframleiðslu, landtengingum skipa og öðrum verkefnum á sviði orkuskipta. Hækkun raforkuverðs með sölu upprunaábyrgða minnkar samkeppnishæfni íslenskra framleiðslufyrirtækja og dregur úr arðsemi nauðsynlegra fjárfestinga í orkuskiptum. Sala á upprunaábyrgðum raforku til heimila og hefðbundinna fyrirtækja dregur úr hvata til orkuskipta og kolefnishlutleysis og  vinnur gegn markmiðum stjórnvalda.

Brim stefnir ekki að kaupum á upprunaábyrgðum raforku á árinu 2023.

Hringrásarhagkerfið

Brim byggir upp hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem komið er í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Uppbygging þess er forgangsatriði stjórnvalda þessi misserin en markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Brim hefur um árabil unnið að þessum markmiðum enda er góð nýting auðlinda og lágmörkun úrgangsmyndunar jákvæð út frá umhverfi og efnahag og skapar auk þess samfélagsleg verðmæti. Frumkvæði og tillögur starfsfólks, markviss fræðsla og samstarf við birgja og opinbera aðila gegna lykilhlutverki í þessu samhengi.

Úrgangsforvarnir, endurnotkun og endurvinnsla eru grundvallaratriði í starfsemi Brims. Metið er hvort úrgangur sem fellur til á mismunandi starfsstöðvum sé nýtanlegur á öðrum starfsstöðvum. Ef svo er ekki, er úrgangurinn flokkaður og afdrif hans skráð í umhverfisstjórnunarkerfi Brims. Fræðsla um úrgangsmál skiptir miklu máli og hefur félagið gefið út myndband um hringrásarhagkerfi úrgangs. Á árinu 2022 var losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangs 252 tonn og hefur hún minnkað um 95 tonn frá 2021.

Ker í hringrás

Brim notar um 5.000 fiskiker á ári um borð í ísfisksskipum félagsins. Kerin eru þvegin eftir hverja löndun. Góð kæling og meðferð á afla frá veiðum og til vinnslu, er mikilvæg forsenda verðmætasköpunar. Heildar kolefnisspor vegna framleiðslu og flutnings kerja til Brims var um 73 tCO2 á árinu 2022.

Ábyrgar veiðar

Endurnotkun og endurvinnsla veiðarfæra

Veiðarfæri eru mjög verðmæt og leggur Brim áherslu á góða endingu þeirra sem og merkingar í samræmi við reglur þar um. Á árinu 2022 urðu engin óhöpp þannig að veiðarfæri yrðu eftir í sjó. Brim endurvinnur, í samstarfi við Hampiðjuna, öll veiðafæri sem ekki nýtast lengur. Áhafnir skipa og starfsfólk flokkunarstöðva Brims fjarlægja þá hluta veiðafæra sem endurnýta má innan félagsins en öðrum hlutum veiðarfæra er skilað til Hampiðjunnar sem nýtir ákveðna hluta þeirra, fjarlægir óendurvinnanlega efnisbúta og selur annað til erlendra endurvinnsluaðila.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fá upplýsingar frá Hampiðjunni yfir útflutt magn veiðarfæraúrgangs sjávarútvegsfyrirtækja og sendir þær til Úrvinnslusjóðs. Fyrir hendi er samningur milli SFS og Úrvinnslusjóðs þess efnis að samtökin beri ábyrgð á að úrgangsveiðarfæri úr gerviefnum séu endurunnin. Um leið er nýtt heimild til undanþágu á úrvinnslugjaldi á veiðarfærum úr gerviefnum.

Nýr stjórnbúnaður togveiðarfæra minnkar olíunotkun

Svokallaðir toghlerar eru hluti af veiðarfærum skipa, framleiddir úr stáli og eru notaðir til að halda trollinu opnu til að fiskurinn syndi inn í það. Ný hönnun stjórnbúnaðar var tekin í notkun á árinu í uppsjávarskipum félagsins, sem gerir skipstjóra kleift að stýra toghlerum betur en áður með tilliti til olíunotkunar. 

Kælimiðlar

Losun vegna kælimiðla var 2.207 tCO2 á árinu, sem er verulegur samdráttur frá árinu 2021 en þá var losunin 4.371 tCO2. Frystiskipið Vigri RE 71 var sett í slipp haustið 2022 og var þá freoni í kælikerfi skipsins skipt út að mestu leyti fyrir umhverfisvænni kælimiðla og hefur markmiði um útskiptingu kælimiðla, sem sett var árið 2021, því verið náð. Gera má ráð fyrir að losun vegna kælimiðla verði mjög takmörkuð til framtíðar.

Flutningur

Flutningur afurða

Flutningur á afurðum Brims fellur undir svokallað umfang 3, það er losun sem tilheyrir virðiskeðju afurðanna. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka þekkingu innan Brims á þessari losun undanfarin misseri. Hefur samstarf við birgja leikið þar lykilhlutverk. Jafnframt hefur umhverfisstjórnunarkerfi Brims verið mikilvægur hlekkur í þessari vinnu, en í það er m.a. streymt rafrænum upplýsingum frá birgjum Brims. Reiknivélar fyrir kolefnislosun eru nýttar að hluta til að leggja mat á losun vegna flutninga, en Brim leggur mikla áherslu á að til framtíðar verði raungögn frá birgjum grundvöllur upplýsingagjafar um losun tengt umfangi 3. Á árinu 2022 var heildarlosun vegna flutnings bolfisksafurða 3.161 tCO2. Flutt voru út 18.082 tonn afurða með skipum og 839 tonn afurða með flugi. Losun vegna flutnings er að meðaltali 0,29 kg CO2/kg afurð af ferskum bolfisksafurðum, í tilviki landfrystra afurða 0,10 kg CO2/kg afurð og 0,12 kg CO2/kg af sjófrystum bolfisksafurðum.

Auk afurða sem Brim flytur út beint voru framleidd 7.941 tonn af bolfisksafurðum sem afhent voru innanlands og þá seld áfram af öðrum fyrirtækjum. Kolefnislosun vegna flutnings telst ekki með í heildarlosun Brims hvað þær afurðir snertir.

Heildarlosun vegna útflutnings á fiskmjöli og lýsi var 1789 tCO2, en samtals voru flutt út 40.943 tonn af mjöl- og lýsisafurðum. Losun var því 0,044 tCO2 á hvert tonn af afurð sem flutt var út. Heildarútflutningur frystra uppsjávarafurða var 24.574 tonn og er losun vegna flutninga þeirra metin 0,12 tCO2 á hvert tonn af afurðum. Allar uppsjávarafurðir eru fluttar út með skipum. Frystar uppsjávarafurðir eru fluttar út af Iceland Pelagic og Icelandic Japan og reiknast því kolefnislosun vegna flutnings þeirra ekki með í heildarlosun Brims.

Samstarf við birgja eykur gæði losunarupplýsinga

Brim leggur áherslu á samstarf við birgja og fyrirtæki sem þjónusta félagið til að auka nákvæmni upplýsingagjafar um losun gróðurhúsalofttegunda. Fram til 2021 hefur umhverfisuppgjör félagsins notast við ýmsar reiknivélar kolefnisspors til að meta losun vegna flutninga og hefur félagið verið í samstarfi við þjónustuaðila sína um það mat. Á árinu 2022 hefur sú nýsköpun átt sér stað að Icelandair hefur miðlað raungögnum um losun vegna flutninga á vörum Brims með flugvélum félagsins. Sambærileg miðlun upplýsinga berst í auknum mæli frá öðrum þjónustuaðilum. Slíkt samstarf eykur gæði umhverfisuppgjörsins og kallar á umræður og hugmyndavinnu varðandi leiðir til að draga enn frekar úr kolefnisspori í virðiskeðjunni. Brim stefnir að enn auknu samstarfi við birgja á komandi árum, þannig að umhverfisuppgjör félagsins nýti í sem mestum mæli raungögn um losun tengt umfangi 3 (scope 3).

Kolefnisspor afurða Brims

Útreikningur á kolefnisspori afurða félagsins er unninn samkvæmt ISO 22948:2020 (Carbon footprint for seafood). Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum úr umhverfisuppgjöri félagsins og er þetta í annað sinn sem Brim birtir þessar upplýsingar. Breytingar frá fyrri framsetningu eru þessar:

  • Í umhverfisstjórnkerfi Brims eru búið að setja upp ítarlega útreikninga kolefnislosunar á öllum útfluttum afurðum félagsins. Útreikningarnir eru byggðir á alþjóðlegum stöðlum sem skipafélög styðjast við, auk raunupplýsinga frá Icelandair. Losun vegna flutninga afurða er því alfarið byggð á umhverfisuppgjöri félagsins, en árið 2021 var byggt á útreikningum Matís um losun vegna flutnings á mismunandi áfangastaði og með mismunandi flutningsaðferðum.
  • Megnið af flutningi ferskra afurða er með skipum (85,8%). Einungis 14,2% ferskra afurða eru fluttar með flugi. Losun vegna flutnings ferskra afurða er vegið meðaltal þessara flutningsleiða. Útreikningar á losun vegna flutninga ferskra afurða fyrir 2021 hafa verið leiðréttir m.t.t. raunupplýsinga frá þjónustuaðilum, til að gera samanburð á milli ára raunhæfari. Losun vegna gámaflutninga frystra afurða landvinnslu og sjófrystingar er vegið meðaltal allra hafna.
  • Losun vegna umbúða hefur verið greind ítarlegar en áður, í samstarfi við birgja og rannsóknaraðila, sem gerir Brim kleift að ráðstafa losun niður á afurðaflokka. EFLA staðfestir þá ráðstöfun. Losun vegna umbúða tekur í dag tillit til framleiðslu og flutnings umbúða og trébretta sem afurðum er staflað á til útflutnings.

Umhverfisuppgjör

Umhverfisuppgjör í sífelldri þróun

Umhverfisuppgjör Brims hefur þróast verulega síðustu misserin. Uppgjörið nær í mun meiri mæli en áður yfir losun tengt virðiskeðju afurða félagsins (umfang 3), t.d. bílaleigubíla, flugferðir starfsfólks, innanlandsflutning vara og hráefnis, inn- og útflutningur vara/afurða til og frá félaginu, ferðir starfsfólks til og frá vinnu ásamt upplýsingum um kolefnisspor á hverja framleiðslueiningu aðfanga. Til að auðvelda samanburð á milli ára er heildarlosun birt, sem og losun út frá grunnárinu 2015, þegar félagið hóf fyrst að reikna kolefnislosun. Umsvif Brims hafa aukist síðustu árin og í umhverfisuppgjöri ársins 2022 var lögð áhersla á að samræma þær tekjur og losun sem uppgjörið nær yfir. Er þetta gert til að samanburður á milli ára sé marktækur og áhrif aðgerða komi skýrt fram. Sökum þessa eru tekjur og starfsmannafjöldi uppfærð frá fyrri árum og ná einungis til botnfisks- og uppsjávarsviðs Brims, sem undanskilur dótturfélögin Vignir G. Jónsson, Seafood Services og Icelandic Japan.

Ef miðað er við losun út frá grunnári, var hún árið 2022 samtals 69.191 tCO2 og hækkar frá 2021 um rúm 2 þús tCO2. Myndin hér fyrir neðan sýnir þróun losunar frá fiskiskipum og fiskmjölsverksmiðjum á síðustu árum og hlutfallslega notkun raforku af heildarorkunotkun fiskmjölsverksmiðja. Skerðingar á afhendingu raforku til fiskmjölsframleiðslu á árinu 2022 koma fram í stærra kolefnisspori fiskmjölsframleiðslu, eins og sjá má á myndinni til hægri.

Sviðsmynd: Kolefnishlutlaus framleiðsla fiskmjöls á Vopnafirði

Brim hefur mótað sér umhverfis- og loftslagsstefnu og sett sér markmið um kolefnishlutleysi til lengri tíma. Skynsamleg nýting auðlinda leggur grunninn að starfsemi Brims og leggur félagið sitt af mörkum til ábyrgrar auðlindanýtingar og skynsamlegra loftslagsaðgerða. Dæmi í þá veru er fjárfesting í kolefnisbindingu með skógrækt að Torfastöðum í Vopnafirði og fjárfesting í toghlerum uppsjávarskipa sem spara olíu, samvinna uppsjávarskipa félagsins við veiðar, samþætting veiða og vinnslu uppsjávarafla og rafvæðing fiskmjölsverksmiðju Brims á Vopnafirði.

Samstarf innan Brims og hagnýting gagna og þekkingar starfsmanna sem og samstarfsaðila hefur skapað forsendur til að greina losun gróðurhúsalofttegunda niður á fisktegundir og draga markvisst úr henni.

Við væntum þess að aðgerðaáætlun um orkuskipti nái fram að ganga og að endurnýjanleg orka verði grundvöllur haftengdrar starfsemi árið 2030. Þegar hefur verið ráðist í fjárfestingar í orkuskiptum fiskmjölsverksmiðju Brims á Vopnafirði og framundan eru frekari fjárfestingar í landtengingum skipa þar. Brim hefur sett sér markmið um 2% minni olíunotkun skipa ár frá ári og vænta má þess að tækniframfarir og bætt þekking á fiskistofnum geri mögulegt að ná enn betri árangri. Eins og sjá má á myndunum hér að neðan (til vinstri) losar framleiðsla Brims á fiskmjöli lítið magn gróðurhúsalofttegunda í samanburði við það sem almennt gerist. Ef gengið er út frá 2% minni olíunotkun við veiðar ár frá ári, tryggu aðgengi að raforku og fjárfestingum í orkusparandi lausnum og kolefnisbindingu á Torfastöðum, má gera ráð fyrir að fiskmjölsframleiðsla Brims geti verið kolefnishlutlaus árið 2050, líkt og myndin að neðan til hægri sýnir. Sambærilegir möguleikar eru fyrir hendi varðandi aðra hluta starfsemi Brims.

Samfélagsverkefni

Þátttaka í þróun samfélags

Brim styður við ýmis samfélagsverkefni með beinum og óbeinum hætti.

Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík og á Akranesi eru sjálfboðaliðasamtök sem veita efnaminni fjölskyldum mikilvæga aðstoð allan ársins hring. Þá aðstoð er ekki hægt að veita án stuðnings frá fyrirtækjum sem styrkja nefndirnar með ýmsum hætti.

Brim styður við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi bæði til sjós og lands og er stuðningsaðili björgunarsveitanna Ársæls í Reykjavík, Vopna á Vopnafirði og Björgunarfélags Akraness. Tveir fulltrúar frá Brimi eru í faghóp um öryggismál innan Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi. Í faghópnum sitja ábyrgðarmenn öryggismála aðildarfyrirtækja SFS. Markmiðið með starfi faghópsins er að fækka slysum og óhöppum í atvinnugreininni.

Brim styrkir íþrótta og æskulýðsstarf með áherslu á sveitarfélög þar sem starfsstöðvar félagsins eru. Þar má meðal annars nefna styrki til Íþróttabandalags Akraness og Einherja á Vopnafirði. Einnig hefur félagið stutt Þorgrím Þráinsson, rithöfund, til að flytja fyrirlestur sinn „Verum ástfangin af lífinu“ í öllum grunnskólum landsins.

"Í síðustu viku var mér boðið að vera með fjögur erindi á Vopnafirði, í heilsuviku sem var skipulögð af Brimi í samvinnu við sveitarfélagið, skólana og fleiri. Ég fékk að lesa upp í leikskólanum, vera með erindi og upplestur fyrir 1.- 4. bekk, síðan fyrirlestur fyrir 5.-7. bekk. Og undir lokin með fyrirlestur fyrir starfsfólk Brims og almenning á Vopnafirði í þeirra frábæra félagsheimili. Auk þess færði Brim nemendum í 8.-10. bekk bókargjöf – vinnubókina upp úr bókinni Verum ástfangin af lífinu. Það sem er einna eftirminnilegast frá heimsókninni, fyrir utan gestrisni allra, er ríkur orðaforði nemenda í 1.- 4. bekk. "

Tilvitnun í Þorgrím Þráinsson eftir námskeið á Vopnafirði haustið 2022.

Heilsudagar á Vopnafirði

Á aðventunni stóð Brim fyrir heilsudögum í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp. Í boði var fjölbreytt dagskrá sem tók á þáttum eins og hreyfingu, mataræði, líkamsbeitingu og heilsufarsástandi. Að verkefninu komu ýmsir einstaklingar, bæði aðkomnir og úr nærsamfélaginu. Unnið var með grunnskóla, leikskóla, félagsmiðstöð og íþróttahúsi til að stuðla að betri heilsu allra sveitunga. Heilsudagarnir voru afar vel heppnaðir sem má þakka starfsfólki Brims og íbúum Vopnafjarðar, ungum sem öldnum. Heilsudagar á Vopnafirði voru í framhaldi af vel heppnuðum heilsudögum sem haldnir voru fyrir starfsfólk Brims í Norðurgarði.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins

Sjávarútvegsskóli unga fólksins var kenndur í Reykjavík í þriðja sinn sumarið 2022. Hann er sumarskóli fyrir 14-16 ára grunnskólanemendur og er starfræktur í samstarfi fyrirtækja í sjávarútvegi, Háskólans á Akureyri, Vinnuskóla Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness. Um 70 ungmenni í vinnuskólunum fengu tækifæri á að sækja skólann í eina viku í senn.

Brim hefur verið aðalstyrktaraðili skólans í Reykjavík þessi þrjú ár og býður jafnframt nemendum í heimsókn þar sem þau kynnast starfsemi félagsins og sögu þess. Sjávarútvegsskóli unga fólksins var stofnaður árið 2013 af Síldarvinnslunni á Neskaupstað en Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri tók við rekstrinum árið 2017. Síðan þá hefur skólinn verið rekinn í samstarfi við vinnuskóla byggðarlaga og sjávarútvegsfyrirtæki í Reykjavík, á Austurlandi og á Norðurlandi.

Kennarar við skólann eru útskrifaðir sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri. Kennsla er á formi fyrirlestra þar sem nemendur fræðast um sögu fiskveiða og fiskvinnslu, kvótakerfi, tegundir fiska, markaðsmál, gæðamál, öryggismál og margt fleira. Nemendur heimsækja fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum, skoða fiskiskip, fá fyrirlestra frá utanaðkomandi sérfræðingum og skoða Sjóminjasafnið.

Samfélagsverkefni

Sjómannadagurinn

Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð voru bakhjarlar hátíðahalda í Örfirisey í tengslum við sjómannadaginn árið 2022. Hátíðahöldin eiga sér langa sögu, en féllu niður í tvö ár vegna Covid 19. Þau tókust afar vel og lagði mikill fjöldi fólks leið sína út í Örfirisey í blíðuveðri. Tvö útisvið voru sett upp, annað við Brim og hitt á Grandagarði. Þar stigu tónlistarmenn og leikarar á stokk. Auk þess var fjölbreytt dagskrá allan daginn á hátíðarsvæðinu, sem náði frá Hörpu að útilistaverkinu Þúfunni. Meðal annars var boðið upp á siglingu með varðskipinu Þór, skoðunarferð um borð í Viðey, smíðavöll með endurnýttu timbri, koddaslag, reipitog, kraftakeppni, andlitsmálningu, Sirkus Íslands og margt fleira. Þá gátu gestir hátíðarinnar gætt sér á dýrindis fiskisúpu, sem var í boði Brims í stóru tjaldi við fiskiðjuverið Norðurgarði.

Margt í gangi á Breiðinni

Margt í gangi á Breiðinni

Komið er fram á þriðja starfsár Breiðar þróunarfélags, sem stofnað var af Brim og Akraneskaupstað árið 2020. Markmið félagsins er uppbygging á starfssvæði Brims, Breiðinni, með áherslu á atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar. Um er að ræða metnaðarfullt langtímaverkefni, sem hefur þegar skilað markverðum árangri. Í Breið nýsköpunarsetri hafa yfir 100 manns skrifstofuaðstöðu, auk þess sem þar má finna FabLab, kennsluaðstöðu og líftæknismiðju í þróun. Alls standa 23 aðilar að samstarfinu um nýsköpunarsetrið og voru 1.115 þátttakendur í verkefnum því tengdu fyrsta heila starfsárið.

Efnt var til hugmyndasamkeppni um þróun Breiðarinnar á árinu. Tillaga Arkþing Nordic, Lifandi samfélag við sjó bar sigur úr býtum en alls bárust 24 tillögur í samkeppnina.

Verkefnin á Breiðinni hafa hlotið verðskuldaða athygli, en á árinu var m.a. fjölmennur íbúafundur haldinn á Akranesi um framtíð Breiðarinnar, haldnar tæknimessur fyrir fjölda grunnskólanemenda í Breið nýsköpunarsetri og tekið á móti íslenskum og erlendum ráðherrum og þingmönnum, sem vildu fræðast um starfsemina og áformin um uppbyggingu.